Dansakademían var stofnuð árið 2021 og er skólinn starfrækur á Selfossi. Hefðbundin kennsla er september til maí ár hvert, ásamt styttri sumarnámskeiðum sem eru tilvalin fyrir forvitna sem vilja kynnast starfsseminni okkar. Árið skiptist upp í tvær annir, haustönn og vorönn.
 

Haustönn er æfingatímabil þar sem við leggjum áherslu á að læra danstækni og vinnum eftir hvatningakerfinu okkar.
Stöðumat er í lok haustannar til að meta árangur hvers hóps og tryggja heildstætt dansnám þvert yfir alla hópa.

Vorönn er sýningartímabil þar sem við vinnum að nemendasýningunni okkar sem sýnd er á stóra sviði Borgarleikhússins undir lok vorannar. Hver hópur fær hlutverk í sýningunni og taka allir nemendur skólans þátt í sýningunni.

Saman mynda annirnar eitt heildrænt skólaár þar sem nemendur kynnast dansi í æfinga- og sýningaformi.

Tekið er inn nemendur í byrjun hverrar annar og lokar skráning tveimur vikum eftir að kennsla hefst.
 
Dansnámið okkar er undirstaða starfseminnar og bjóðum við upp á tómstundamiðað jazzballettnám fyrir börn og ungmenni á öllum aldri. Markmið okkar er að skapa gott umhverfi fyrir dansara á hvaða getustigi sem er til að vaxa og dafna. Samhliða almennu dansnámi geta börn sótt leiklist og aðra valtíma í mismunandi dansstílum sem styðja við þeirra vegferð í sviðslistum. 
Nemendur 4-5 ára
_42A0516 copy
_42A0463

Í tímunum fyrir börn á aldrinum 4-5 ára leggjum við áherslu á dansgleði og skemmtun! Við örvum skilningarvitin með litum, takti, leik og notum ímyndunaraflið til að kanna hreyfingarnar okkar. Tímarnir eru 40 mínutur að lengd þar sem lagður er grunnur í jazzballett tækni ásamt skapandi dansi. Börn eru án foreldra inni í tímum, nema að annað sé tekið fram eða rætt um. Þannig getum við æft okkur og eflt sjálfstæði og frumkvæði barnanna.

Mikilvægt er að muna eftir að mæta með vatnsbrúsa og vera búin að fara á klósettið fyrir tímann.

Nemendur 6 ára og eldri
_42A0240
_42A0329

Í jazzballetttímum fyrir börn og ungmenni á aldrinum 6 ára og eldri er dansgleði og skemmtun í fyrirrúmi ásamt ríkri áherslu á jazzballetttækni. Við lærum að vera partur af hóp, hvetjum hvort annað áfram og sköpum trausta liðsheild. Kynntir eru mismunandi dansstílar innan jazzballettsins og lögð er áhersla á leikræna túlkun og tjáningu. Erfiðleikastig miðast við getustig hvers hóps að hverju sinni en þannig tryggjum við að kennslan sé persónuleg og einstaklingsmiðuð. Notuð eru tól frá leiklistinni til að efla sjálfstraust og framkomu nemanda sem nýtast jafnframt í danstímunum sem og almennt í lífinu.

Jazzballettnám er tilvalið fyrir þau sem vilja heilsueflandi og skemmtilega tómstund!

Nemendur 7 ára og eldri
IMG_5008
IMG_9042
7-9 ára - 10-12 ára - 13-16 ára

Í söng og dans lærum við að syngja í hóp og tengja saman hreyfingar við söng. Mikil áhersla er á leikgleði og túlkun í gegnum söng og dans. Þessir tímar eru frábær leið til að kynnast söngleikjum en langflestir dansarar syngja bæði og dansa í söngleikjum! Við viljum veita nemendum okkar góðan grunn fyrir þá sem stefna lengra í leikhúslífinu.

Fyrir nemendur 7-9 ára er kennt í einni samfelldri lotu söng og dans samhliða.

Fyrir nemendur 10 ára og eldri er kennt í tveimur lotum:
– Sönglota 20.janúar-14.febrúar 
– Danslota 16.febrúar-3.maí
Endilega kynnið ykkur æfingatíma hér þar sem æfingatímarnir fyrir sönglotuna eru aðrir en fyrir danslotuna. Söngtímar fara fram í Tónsmiðju Suðurlands.

Kennarar námskeiðisins eru Ástrós Guðjónsdóttir með dans og framkomu og Stefán Þorleifsson með söng.

Öll lög eru íslensk og nemendur þurfa að læra textana sína heima.

Acro 1(10 ára+ byrjendur) - Acro 2(10ára+ framhald)

Acro dans er eins og fimleikar fyrir dansara. Áhersla er lögð á líkamlegan styrk, liðleika og hvernig Acro danstækni nýtist í danslist. Við vinnum með allskonar útfærslur af handahlaupum og brú. Tveir hópar eru í boði, annarsvegar fyrir þá sem eru að stíga sín fyrstu skref í Acro 1 og fyrir lengra komna í Acro 2*. Kennari getur þurft að færa nemendur um hópa til að tryggja það að allir njóti sín og fái viðeigandi æfingar. 

Nemendur þurfa að mæta í aðsniðnum æfingafatnaði með hár í snúð eða föstum fléttum og passa að hafa enga skartgripi sem geta flækst.

*Í Acro 2 þarf nemandi að vera með góða færni í handahlaupum á báðum hliðum, vera með sterka og góða brú ásamt góðum liðleika og styrk.

Kennari námskeiðisins er Ástrós Guðjónsdóttir.

10 ára og eldri

Lokaatriði nemendasýningarinnar í Borgarleikhúsi! Þessir valtímar eru fyrir þá nemendur sem vilja taka þátt í lokaatriði nemendasýningarinnar. Kennt er í einum stórum blönduðum aldurshóp. Nemendur þurfa að æfa sig heima þar sem tímarnir eru einungis 1x í viku og yfirferðin mikil og hröð. Tímarnir eru frábær leið til að kynnast fleiri nemendum skólans og fá innblástur frá hvort öðru!

Kennari námskeiðisins er Ástrós Guðjónsdóttir.

20.janúar-14.febrúar
10-12 ára

Söngleikjadans er stutt 4 vikna valnámskeið þar sem lögð er áhersla á mikla dansgleði! Tímarnir eru byggðir upp á stuttri upphitun og miklum dansi. Við eflum okkur í framkomu og kynnumst frægum söngleikjum, nýjum sem gömlum. 

Kennari námskeiðisins er Ástrós Guðjónsdóttir.

13-16 ára

Danstækni – hringir og stökk er stutt 4 vikna valnámskeið þar sem við köfum á dýptina í flóknari hringja og stökkæfingar. Tímarnir eru byggðir upp á styrktar- og liðleikaæfingum sem hjálpa okkur að framkvæma flóknari tækniæfingar. Námskeiðið er góð leið til að bæta við sig tæknilegri getu sem nýtast í sýningar!

Kennari námskeiðisins er Ástrós Guðjónsdóttir.

Nemendur 9 ára og eldri
IMG_4920
IMG_4925

TeamDansakademían er fyrir metnaðarfulla og dansþyrsta nemendur sem vilja krefjandi en skemmtilega þjálfun. Nemendur þreyta inntökupróf í hópinn og þeir sem komast áfram fá tækifæri til að taka þátt í Dance World Cup. TeamDansakademían eru viðbótarnám samhliða hefðbundnu dansnámi og því verða nemendur að æfa í sínum heimahópi (A eða N hópi). Fyrir þá sem hyggjast fara í inntökupróf er skylda að skrá sig í Danstækni á haustönn og vorönn. Kostur er að nemandi sæki sér fleiri valtíma til að eiga betri möguleika á að komast inn í hópinn og í leiðinni styrkja sig sem fjölhæfan dansara. Nemendur geta fengið boð um að fara í æfingaferð með keppnisliði skólans ef nemendur komast ekki inn í TeamDansakademían.

Yngri nemendur 9-13 ára taka þátt í undankeppninni í Borgarleikhúsinu en fara EKKI í lokakeppnina í útlöndum. Það er gríðarlega dýrmæt og góð reynsla að æfa sig í að keppa og öðlast reynslu á þessu sviði, en einungis eldri nemendur fara í lokakeppnina.

Eldri nemendur 14 ára og eldri keppa í undankeppni Dance World Cup og fara í lokakeppnina í Burgos sumarið 2025, ef að hópurinn vinnur sér inn keppnisrétt. Ath. í sumum tilfellum eru undantekningar gerðar og yngri nemendur fá boð um að keppa upp fyrir sig með eldri nemendum. Foreldrahópur eldri nemenda mun þurfa að standa fyrir fjáröflunum og er ætlast til að allir séu virkir í því starfi. 

Næst verða haldnar inntökuprufur í október 2024. Ef að nemandi kemst inn þá skuldbindur hann sig að mæta á allar æfingar ásamt því að æfa sig heima. Rík krafa er gerð á sjálfstæð vinnubrögð í TeamDansakademían og er ætlast til að nemendur æfi sig heima og mæti vel undirbúin á hverja æfingu. 

Æfingar fara fram 9.-19.desember, 5.-9.janúar og 1x í viku í 2 klst í janúar og febrúar fram að keppni. Æfingaprógram er birt þegar inntökuprufum er lokið, skyldumæting er á allar æfingar.

Nemendur geta sótt um að vera í hópatriði, dúett/tríó eða með sóló. Inntökuprufur eru fyrir hvern flokk sem verða auglýstar síðar. Innifalið í gjaldi eru x margar æfingar í að læra atriði (fer eftir fjölda dansara) og „keyrsluæfingar“ í janúar og febrúar þar sem öll atriði eru æfð í sameiningu. Nemendur verða að æfa sig heima, líkt og leikari æfir línurnar sínar heima, og mæta undirbúinn á hverja æfingu til að halda áfram með atriði. Ef að nemendur þurfa aukalega æfingu með danshöfundi þarf að greiða fyrir það sérstaklega 10.000 kr. fyrir hverjar 60 mínútur. 

Ef að eldri nemendur vinna sér inn keppnisrétt bætist við annað æfingatímabil í maí-júní sem er greitt fyrir sérstaklega 49.900 kr. Innifalið í sumargjaldi eru 2x danstækniæfingar og 2x keyrsluæfingar á viku í 7 vikur.

30 ára og eldri
tríó með gerði-1
IMG_4465

Í fullorðinstímum er skemmtun í fyrirrúmi! Við gerum skemmtilega upphitun þar sem við vinnum með liðleika- og styrktaræfingar sem sækja innblástur frá jazzballett, pilates og jóga. Við styrkjum kvið, bak og mjaðmir, eyðum góðum tíma í fjölbreyttar dansæfingar og lærum dansrútínu.

Tímarnir eru fyrir alla þá sem vilja stunda heilsueflandi og skemmtilega líkamsrækt í góðum félagsskap. Ekki er gerð krafa um fyrri dansreynslu og erfiðleikastig miðast við getustig hvers hóps að hverju sinni til að tryggja að kennslan sér persónuleg og einstaklingsmiðuð.

Hvert námskeið er 4 vikur, tímar eru á mánudögum kl.19:10-20:20. Ný rútína er tekin fyrir á hverju námskeiði.

Shopping Cart